Drekkingarhylur
Aftökustaður kvenna
Með tilkomu Stóradóms í kjölfar siðaskiptanna um miðja 16. öld færðust dauðadómar mjög í vöxt á Íslandi og í hartnær tvær aldir voru kveðnir upp fjölmargir dauðadómar á Alþingi fyrir morð og hórdómsbrot (legorðsbrot). Í Drekkingarhyl í Öxará á Þingvöllum, þar sem áin rennur úr Almannagjá, var 18 konum drekkt með því að setja þær í poka ásamt grjóti og fleygt í hylinn. Fyrstu konunni var drekkt í Drekkingarhyl árið 1590 en þeirri síðustu árið 1749.
Þórdís Halldórsdóttir úr Skagafirði
Ein þeirra kvenna sem tekin var af lífi í Drekkingarhyl var Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Árið 1608 hafði Þórdís eignast barn utan hjónabands en neitaði að upplýsa hver faðirinn væri. Eftir langar yfirheyrslur, sem á þeim tíma fólu oft í sér pyntingar, hélt hún því fram að mágur hennar væri faðirinn. Hún dæmd til dauða fyrir legorðsbrot og ljúgvitni en dómnum var ekki fullnægt fyrr en 10 árum síðar eða árið 1618. Rithöfundurinn Jón Björnsson skrifaði skáldsöguna Jómfrú Þórdís (1964) um mál þetta.
Tileinkun
Þann 5. september 2006 framdi listakonan Rúrí gjörning við Drekkingarhyl sem hún kallaði Tileinkun í minningu þeirra kvenna sem teknar voru af lífi í hylnum. Sjá einnig færsluna Þingvellir.
Myndband: Finnur Bárðarson