Ystiklettur í Vestmannaeyjum

48 bújarðir

Ystiklettur blasir við, þegar siglt er inn hafnarmynnið á Heimaey. Gegnt honum, af landi, er útsýnispallur á nýja hrauninu úr Heimaeyjargosinu 1973. Þaðan má virða fyrir sér klettinn, náttúru hans og sögu.

Samkvæmt elstu skjölum frá 16. öld var Heimaey frá fornu fari skipt upp í 48 bújarðir. Á þessum jörðum bjuggu bændur, sem lifðu með sitt búalið á gæðum jarða sinna, en þeim fylgdu ýmis hlunnindi önnur en grasnytjar og búfjárhald á heimalandinu. Bændur höfðu t.a.m. rétt á að nýta sér fjörurnar á Heimaey, s.s. þang, söl og rekavið og að beita og heyja kletta og úteyjar. Réttur á reka í fjörum var þó stundum á reiki. Auk þess höfðu þeir einir aðgang að hinu auðuga sjófuglalífi, sem m.a. þreifst í úteyjum, og gaf af sér kjöt, fiður og egg. Hið takmarkaða landrými á Heimaey skapaði því lítið svigrúm til lífsframfæris fyrir aðra en bændur, sem þó sátu á litlum jörðum og þurftu einnig að nýta sér það, sem sjórinn gaf. Voldug kaupmennska þreifst reyndar um aldir við höfnina og þar varð einnig smám saman til stétt svokallaðs þurrabúða- eða tómthúsfólks, sem bjó í tómthúsum án nokkurra réttinda til landnytja. 

49. bújörðin

Ystiklettur var í kjölfar verslunareinokunar frá því um miðja 16. öld skilgreindur af danska konungsvaldinu sem 49. bújörðin í Eyjum. Kirkjubæjajarðirnar 8, sem fram að þeim gjörningi höfðu haft nytjaréttindi í klettinum, voru þar með sviptar þessum rétti og var honum ekki “skilað aftur” fyrr en 450 árum síðar! Mikil hlunnindi fylgdu Ystakletti, s.s. ársbeit fyrir u.þ.b.120 fjár, graslendur fyrir heyskap auk fugla- og eggjatöku. Árið 1952 eignaðist Vestmannaeyjabær úteyjarnar og færðist þá nytjarétturinn í veiðifélög, sem mynduð voru um hverja ey. Ystiklettur fylgdi með í þessari breytingu og hús, sem er ofarlega í klettinum, tilheyrir ákveðnu veiðifélagi, en svo er og um hús í úteyjum, að þau eru í eigu veiðifélaga í viðkomandi eyjum. 

Jarðaleifar

Í Heimaeyjargosinu 1973 hurfu a.m.k. á þriðja tug hinna fornu jarða undir hraun. Þessar jarðir voru í austurhluta eyjarinnar, þar sem hefðbundinn fjár- og nautgripabúskapur var þá enn að nokkru stundaður. Græn og grösug tún jarðanna teygðu sig frá fjöruborði upp hlíðar Helgafells og settu sterkan svip á aðkomu frá sjó. Allt er þetta nú horfið. Nöfn jarðanna lifa þó enn í daglegu máli eyjaskeggja, þar sem altítt var, að íbúarnir voru kenndir við þær.

Nokkur hluti gömlu jarðanna á Heimaey lifir enn. Einkum suður á eyju, þar sem svokallaðir ofanbyggjarar bjuggu. Þar lifa gömlu nöfnin á nokkrum húsum, en búskapur er ekki lengur stundaður nema á einstaka stað í litlum mæli sem frístundabúskapur.

Smelltu hér til þess að skoða götumynd á Já.is

Skildu eftir svar