Tómthúsið Kastalinn í Vestmannaeyjum

Fyrstu mormónarnir

Hjónin Benedikt Hannesson og Ragnhildur Stefánsdóttir bjuggu í tómthúsinu Kastala um miðja 19. öld. Benedikt og Ragnhildur voru þau fyrstu sem skírð voru til mormónatrúar í Eyjum árið 1851, af Þórarni Hafliðasyni, sem var þá nýkominn sem trúboði frá Danmörku. Þetta fyrsta embættisverk Þórarins varð upphafið að miklum trúarhræringum í Eyjum, þar sem hann var þar með að seilast inn á svið sóknarprestsins og ögra ríkjandi kirkjuvaldi. Séra Jón Austmann, prestur að Ofanleiti, reyndi að tala um fyrir Kastalahjónunum en án árangurs, og Þórarinn var kallaður heim til yfirheyrslu af sýslumanni frá lundaveiðum í útey. Reyndar átti svo að heita, að trúarbragðafrelsi ríkti í Eyjum sem í öllu Danaveldi, en embættismannakerfið hélt fast í það, að lög væru brotin. Tókust þessi sjónarmið á næstu áratugina, en þegar árið 1853 tóku mormónar í Eyjum til við að skíra opinberlega í söfnuð sinn.

Fyrstu Utah- fararnir

Þau Benedikt og Ragnhildur voru bæði komin yfir þrítugt, þegar þau hlutu mormónaskírn, en þau höfðu nokkrum árum áður leitað til Eyja í von um betri afkomu, kynnst þar og gengið i hjónaband. Lífið hafði þó reynst þeim afar mótdrægt, en á árabilinu 1845 til 1852 höfðu þau eignast 5 börn og misst þau öll. Sem tómthúsfólk höfðu þau ekkert jarðnæði og urðu að framfleyta sér í þeirri  vinnumennsku sem gafst hverju sinni. Eflaust hefur brauðstritið og sár barnamissir ýtt undir hjónin að taka mormónatrú og halda á brott vestur um haf með von um nýtt líf. Þau höfðu ekki frá miklu að hverfa. Hjónin sigldu til Kaupmannahafnar árið 1852 og urðu þar með fyrstu Íslendingarnir, sem lögðu af stað til Utah. Í Danmörku stöldruðu þau hins vegar við í mörg ár, væntanlega til þess að vinna sér inn farareyri, og á meðan höfðu 3 Utah-hópar farið frá Vestmannaeyjum. Vitað er með vissu, að Ragnhildur var komin til Utah árið 1859, en Benedikt lést í Nebraska, þegar skammt var eftir á áfangastað. Þau eignuðust dóttur ytra og komst Ragnhildur með hana á uxakerru til Utah eftir miklar hrakningar. Talið er að Ragnhildur hafi gifst aftur en dóttirin var ein lifandi af 16 frumbyggjum árið 1938, orðin áttræð, þegar minnisvarði var vígður með nöfnum þeirra. 

Fennt í öll spor

Tómthúsið Kastali mun hafa staðið í svokölluðu Kastalahverfi, þar sem nú er Vesturvegur 5. Á þessum slóðum var þyrping tómthúsa, ein af fjórum fjórum, sem eru allar löngu horfnar. Snemma á 20. öldinni, með aukinni velsæld í kjölfar línuveiða og vélbátaútgerðarí, byggðist þetta svæði upp af litlum húsum, sem sum hver standa enn í dag. Áhrif Heimaeyjargossins 1973 urðu þó mikil, þar sem aska, gjall og umrót gossins ollu miklum skemmdum. Mörg hús eru því horfin, ný hafa verið byggð og gatnakerfinu breytt. Fennt hefur varanlega í spor tómthúsfólksins, sem þarna bjó.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar