Edinborgarbryggja í Vestmannaeyjum

Lækurinn með hrófin var aðalathafnasvæði sjávarútvegs á Heimaey í aldir. Á árabátaöld, þegar sjómenn leituðu lands, tókust þeir á við klappir og kletta sem teygðu sig í sjó fram með sandrifjum inn á milli. Um aldir voru engar bryggjur til og eftir að afli var seilaður í land þurfti að koma bátunum fyrir í hrófunum. Var það mikið erfiði.
Fyrsta bryggjan í Eyjum var frá 1880, Austurbúðarbryggjan, síðar Frambryggjan, 30 m löng, hlaðin úr móbergi úr Heimakletti, en hún gekk í sjó fram austan núverandi Nausthamarsbryggju.

Svæðið við Lækinn var aðalatvinnusvæði Gísla J. Johnsen en auk verslunarhúss, Edinborgar, og Edinborgarbryggju reisti hann vélvætt, nútímalegt fiskverkunarhús, Eilífðina, á þessum slóðum 1924. Einar ríki Sigurðsson byggði auðlegð sína á þessu svæði og eignum Gísla eftir 1930 þegar kreppan mikla hafði leikið Gísla grátt.

Um aldamótin 1900 færðist aukinn kraftur í bryggjusmíði þegar Gísli J. Johnsen hafði eignast svæðið við Lækinn og hóf þar verslunarrekstur við sjávarbakkann. Byggði hann bryggju, Gíslabryggju, á árabilinu 1907-1908, sem síðar var kölluð Edinborgarbryggjan. Hvíldi bryggjan á steyptum stöplum og trébúkkum, fylltum af grjóti, og bryggjuhausinn steyptur. Stóð bryggjan á þurru, þegar fjara var. Gísli stækkaði hana í áföngum, steypti voldugan vegg að vestanverðu, fyllti upp með grjóti og steypti bryggjugólfið. Var gamla bryggjan smám saman rifin eftir því sem verkinu vatt fram þannig að árið 1926 var minni hafskipum gert mögulegt að athafna sig við norðurenda nýju bryggjunnar. Edinborgarbryggja stóð í þrjá áratugi en hvarf inn í núverandi Nausthamarsbryggju árið 1956.

Í dag minnir fátt á þessa tíma. Bæjarbryggjan ein frá 1925 er þarna enn, fyrir löngu hætt að þjóna sjávarútveginum nema í litlum mæli. Umhverfi er allt gjörbreytt eftir mannshöndina en hraunið úr Heimaeyjargosinu 1973 lagði endanlega mark sitt á svæðið og gjöreyðingu þess.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

1 Response

  1. Arnar Sigurmundsson skrifar:

    Sæll Birgir

    Eldri hlutin bryggju sem síðar var köllun Edinborgarbryggjan var byggð um 1907-08 af Gísla Johnsen um sama leiti og Bæjarbryggjan sem var byggð af sýslufélaginu með stuðnigi úr Landssjóði. Gísli Johnsen stækkaði síðar bryggjuna í áföngum og 1924 var minni hafskipum gert mögulegt að athafna sig við norðurenda bryggjunnar. Verslunin Edinborg í Reykjavík leigði verslunarrekstur GJJ í Eyjum um skeið á tímum fyrri heimstyrkjaldar og nafn Edinborgar festist á bryggjuna og verslunarhúsið. Gísli tók aftur við rekstrinum 2-3 árum síðar og rak öll fyrirtækin á svæðinu til 1930 , en þá setti heimskreppan setti mörg fyrirtæki og fjölda einstklinga á hliðina og/ eða í gjaldþrot.

Skildu eftir svar