Grundarstígur 24
Athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) lét byggja þetta hús á Grundarstíg 24 árið 1918 fyrir þrjá syni sína og fjölskyldur þeirra. Fram til ársins 1930 bjuggu bræðurnir Kjartan, Ólafur og Haukur ásamt fjölskyldum og vinnufólki í húsinu en þá flutti Ólafur í eigið framúrstefnulegt húsnæði sem hann lét byggja að Garðastræti 41. Húsið stóð á stórri lóð og reistu bræðurnir m.a. hesthús á lóðinni. Verslunarráð Íslands festi kaup á húsinu árið 1931 og hóf rekstur Verzlunarskóla Íslands þar um haustið. Fram að því hafði skólinn verið til húsa á ýmsum stöðum, lengst af á Vesturgötu 10A. Var skólinn rekinn í þessu húsnæði allt þar til hann flutti í nýtt húsnæði við Ofanleiti 1 árið 1986. Árið 1989 keypti Finnur Gíslason húsið og á árunum 1989-1992 endurbyggði hann húsið og breytti því í fjölbýlishús.
Lesefni: Guðmundur Magnússon (2006). Thorsararnir: Auður, völd, örlög. Almenna bókafélagið.