Ólafsdalur í Gilsfirði

Mynd ESSBALD

Ólafsdalur er eyðibýli í samnefndum dal inn af Gilsfirði í Dalasýslu. Staðurinn er einkum þekktur fyrir að hér stofnaði Torfi Bjarnason  (1838-1915) fyrsta bændaskólann á Íslandi árið 1880.

Fyrsti bændaskólinn

Talið er að skólinn hafi stuðlað að byltingu í atvinnuháttum í íslenskum sveitum. Skólinn starfaði til ársins 1907 og á því tímabili stunduðu 154 skólapiltar nám við skólann. Einnig var eitthvað um að stúlkur fengu leiðsögn hjá Guðlaugu konu Torfa. Í  byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal má sjá eintak af hinum frægu Torfaljáum sem útrýmdu með öllu þeim ljáum sem Íslendingar höfðu notað fram að því. Skólahúsið í Ólafsdal er frá árinu 1896.

Þrætubókarlist í Ólafsdal

Þáttur í menntun skólapiltanna var mælskulist í anda evrópskra miðaldaháskóla. Í þeim tilgangi voru haldin málþing þar sem nemendur rökræddu valin efni, stór og smá, og sat Torfi iðulega þessa málfundi. Laugardaginn 18. nóvember 1905 var eitt slíkt málþing haldið þar sem eftirfarandi spurningar voru ræddar: 1) Hvert er betra að eiga konu sem er vargur og sparsöm eða góðlynd og eyðslusöm? 2) Hvert er betra að lifa í sveit eða kaupstað? 3) Hvert er betra eins og nú hagar að hafa fleiri ær eða sauði? 4) Hvert er betra að hafa snemmbærar ær eða síðbærar kýr? Skólapilta greindi helst á um svar við fyrstu spurningunni og lauk málinu með því að spurningin var borin upp til atkvæða. Niðurstaðan varð sú að fimm skólapiltar völdu lundgóðu konuna en fjórir þá stórlyndu.

Fornleifafundur

Haustið 2017 grófu fornleifafræðingar könnunarskurð innarlega í Ólafsdal sem leiddi meðal annars í ljós gólflag og eldstæði frá 9. eða 10. öld. Jafnframt kom í ljós að þarna voru nokkrar byggingar, þar á meðal aflöng 20 metra löng rúst með bogadregnum langveggjum og niðurgrafin sporöskjulaga rúst við enda hennar. Hægt er að fylgjast með rannsókninni á Facebooksíðu hennar sem nálgast má hér.

Ólafsdalshátíð

Aðra helgi ágústmánaðar á hverju ári heldur Ólafsdalsfélagið  Ólafsdalshátíð í Ólafsdal.

Skildu eftir svar