Bankastræti 12 (Prikið)
Veitingastaður eða bar sem Silli og Valdi settu á stofn í Bankastræti 12 um 1950 að amerískri fyrirmynd. Staðurinn seldi aðallega kaffi, gosdrykki (soda) og íshristing. Staðurinn var einn af fleiri sambærilegum stöðum sem Silli og Valdi stofnuðu um miðja síðustu öld og kölluðu Adlon eftir frægu þýsku hóteli í Berlín. Aðrir þekktir Adlon-barir voru í Aðalstræti við hlið Fjalarkattarins, á Laugavegi 126 og á Laugavegi 11. Útlit staðanna var staðlað, borð voru með stálkanti og innréttingar dökkar. Staðurinn er að miklu leyti í upprunalegri mynd en farinn að láta nokkuð á sjá. Það er vel þess virði að bregða sér hingað inn, panta bolla af Caffé Latte og reyna að sjá fyrir sér unga fólkið sem fyllti staðinn á 6. áratug síðustu aldar.