Árið 1786
Íslendingum fækkaði úr 49 þúsundum árið 1783 í 38 þúsund árið 1786 og íbúar Reykjavíkur voru aðeins 167 árið 1786. Bólusóttin sem barst til landsins árinu áður herjaði áfram á landsmenn á árinu 1786 og áhrif gossins í Lakagígum 1783 voru enn mikil. Þótt eldarnir væru slokknaðir þá var byggðin í Vestur-Skaftafellssýslu í rúst og um allt land féllu bæði menn og dýr vegna öskufalls, flúoreitrunar og matarskorts. Þetta ár ákvað konungur Íslands og Danmerkur, Kristján VII, að aflétta verslunareinokun Dana á Íslandi þótt svonefnd fríhöndlun hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 1788 og verslunin áfram takmörkuð við Danmörku. Reykjavík, ásamt fimm öðrum þéttbýlisstöðum, fékk kaupstaðarréttindi þetta ár og Hólavallaskóli var endurreistur í Reykjavík eftir að jarðskjálftarnir miklu á Suðurlandi tveimur árum áður höfðu nánast lagt Skálholt í rúst. Búið var að reisa eitt steinhús í Reykjavík, fangelsið við Arnarhól, og hafin var vinna við byggingu Dómkirkjunnar sem taka átti við hlutverki Víkurkirkju. Í Skagafirði hvarf presturinn í Miklabæ með dularfullum hætti og var afturgöngu ungrar vinnukonu sem framið hafði sjálfsmorð þegar prestur hafnaði henni kennt um hvarfið, enda aðeins fjögur ár liðin síðan Reynistaðabræður hurfu á leið sinni yfir Kjöl og draugatrú í landinu í algleymingi. Í árslok fæddist drengur á Brautarholti á Kjalarnesi sem átti eftir að láta að sér kveða, bæði sem skáld og embættismaður. Þetta var Bjarni Thorarensen, barnabarn fyrsta landlæknis Íslands Bjarna Pálssonar. Bjarni var um tíma dómari í Landsyfirréttinum sem varð til þegar Alþingi var lagt niður, þá sýslumaður og að lokum amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal.