Landsímahúsið við Austurvöll
Landsímahúsið við Thorvaldsensstræti 4 var byggt árið 1931 og stuttu síðar fluttu nokkrar mikilvægar opinberar stofnanir; Ríkisútvarpið, Veðurstofa Íslands, Bæjarsíminn og póstmálaskrifstofan, inn í húsið. Svæðið sem afmarkast af Thorvaldsensstræti, Kirkjustræti, Aðalstræti og Vallarstræti dregur nafn sitt af húsinu og gengur undir nafninu Landsímareiturinn.
10. maí 1940
Vegna hernaðarlegs mikilvægis þeirra stofnana sem Landsímahúsið hýsti varð það eitt af fyrstu húsunum sem breska innrásarliðið hertók árla morguns þann 10. maí 1940. Síðar sama dag las Helgi Hjörvar fréttamaður frétt í Ríkisútvarpið um innrásina ásamt tilkynningu frá yfirforingja hernámsliðsins sem dreift hafði verið í borginni um morguninn. Stundum er sagt að brotin útidyrahurð Landsímahússins hafi verið eina eignartjónið sem varð í Reykjavík innrásardaginn 10. maí.
Draugagangur í Landsímahúsinu
Árið 1937 gerðist Hafsteinn Björnsson miðill lyftuvörður í Landsímahúsinu og gegndi því starfi um nokkurra ára skeið. Til eru margar skemmtilegar sögur af Hafsteini frá þessum árum og sumar snúa að starfi hans sem lyftuvörður. Ein sagan segir að oft hafi fólk sem beið eftir því að komast inn í lyftuna rekið upp stór augu þegar Hafsteinn hleypti kannski aðeins einni manneskju inn í lyftuna og lokaði svo lyftuhurðinni með þeim orðum að lyftan væri full. Þá höfðu greinilega einhverjir sem voru öllu venjulegu fólki ósýnilegir tekið sér far með lyftunni en Hafsteinn ekki gert neinn greinarmun á lífs eða liðnum.