Síðan

Kæri lesandi

Vilt þú kynna þér forna sögustaði í Skagafirði eða sakamál í Húnavatnssýslu á 18. og 19. öld? Eða vilt þú kannski vita hvar flugvélarbrakið sem Justin Bieber renndi sér á í myndbandi sínu við lagið I'll show you er? Ef þetta er nærri lagi þá ert þú á réttum stað. Ef þú finnur ekki staðinn sem þú ert að leita að, eða söguna, hafðu samband og sameiginlega komum við honum á kortið!

Tilgangur

Við sem stöndum að þessari síðu erum áhugamenn um sögu og náttúru Íslands. Markmið okkar með síðunni er að draga athygli að þeim aragrúa áhugaverðra staða sem finna má um land allt, einkum sögustaða. Við leggjum áherslu á stuttar og skorinortar lýsingar en með krækjum á ítarefni opnum við leið fyrir notandann að kynnar sér efnið betur. Hér er ekki um sagnfræðilegt verk að ræða heldur miðlunarverkefni, eins konar "blogg" um staði og sögur sem þeim tengjast. Krækjurnar þjóna einnig því hlutverki að upplýsa notandann um þær heimildir sem stuðst er við, þar sem það á við.

Efnistök

Eins og fyrr segir er útgangspunktur síðunnar staðir sem eiga sér sögu(r). Val á sögum er fullkomlega gerræðislegt og ræður þar aðeins áhugamál og þekking höfunda og lesenda síðunnar. Eina markmiðið er að einhverjum þyki sagan áhugaverð! Ein leið til að gera sögur áhugaverðar er að tengja þær öðrum sögum, tengja sögupersónur öðru fólki og atburði öðrum atburðum. Þessari stefnu er reynt að fylgja hér.

Um spurningar og svör

Það er von okkar að notendur síðunnar taki virkan þátt í þróun síðunnar með því koma með ábendingar um nýjar færslur, með spurningum og með athugasemdum við færslur annarra. Meðal annars bjóðum við upp á spurningar og svör (S&S) sem leið fyrir notendur til að afla sér upplýsinga eða koma þekkingu sinni á framfæri. Allt þetta stuðlar að því að nýjar færslur sjái dagsins ljós og eldri færslur verði betri.

Viðburðadagatal

Síðan býður einnig upp á viðbuðadagatal sem notendur síðunnar geta nýtt sér til að fylgjast með áhugaverðum uppákomum eða koma á framfæri upplýsingum um viðburði sem framundan eru. Áhersla verður lögð á viðburði sem tengjast fræðilegum fyrirlestrum, útgáfu bóka og hvers kyns uppákomum sem tengjast sögu og náttúru landsins.

Að lokum

Höfundar texta eru margir og eigandi síðunnar ábyrgist ekki réttmæti þeirra upplýsinga sem fram koma í gögnunum né heldur afleiðingar sem kunna að hljótast af notkun þeirra. Þá hafa ýmsir verið að gauka að okkur myndum og í mörgum tilvikum er uppruni þeirra óviss. Ef einhver telur að verið sé að nota myndir í leyfisleysi eða setur  sig upp á móti notkun þeirra af öðrum ástæðum þá er viðkomandi hvattur til að hafa samband við okkur.

Góða skemmtun!