Gálgahraun á Álftanesi
Gálgahraun er hraunspilda á Álftanesi sem er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8000 árum.
Gálgaklettur
Í Gálgahrauni er Gálgaklettur sem talinn er einn af aftökustöðum Kópavogsþings sem starfaði frá því snemma á 16. öld fram á miðja 18. öld. Örnefnið Gálgaklettur finnst víða um land og virðist vísa til staða þar sem auðvelt var að skorða einn bjálka til að nota til hengingar. Með því að leggja bjálka yfir hraunsprungu eða milli lágra kletta mátti spara timbur sem annars hefði farið í fullburða gálga. Stundum var hægt að skorða bjálkann þannig að hann stóð fram af kletti. Þegar búið var að koma snörunni um háls sakamannsins var honum varpað fram af klettinum eða ofan í sprunguna. Einnig eru einhver dæmi um að sakamönnum hafi verið hrint fram af klettum. Páll Sigurðsson prófessor emiritus hefur skrifað um aftökuörnefni á Íslandi.