Hjónadysjar í Kópavogi

Mynd ESSBALD

Beinafundur í Kópavogi

Hjónadysjar voru þúst á milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar skammt frá Kópavogslæknum. Þegar breikka átti Hafnarfjarðarveginn árið 1988 var ákveðið að rannsaka þústina þar sem grunur lék á að undir henni væri dys, eða dysjar, sem tengdust aftökum Kópavogsþings. Rannsóknin leiddi í ljós tvær dysjar. Í annarri dysinni fannst beinagrind konu en í hinni beingrind manns án höfuðkúpu en leifar höfuðkúpu fundust við dysina. Flest benti til þess að höfuð mannsins hafi verið sett á staur almenningi til viðvörunar.

Morð í Elliðaárdal rifjað upp

Fræðimönnum þótti sýnt að hér væru komnar jarðneskar leifar Steinunnar Guðmundsdóttur, 44 ára húsfreyju í Árbæ við Elliðaár og Sigurðar Arasonar, 26 ára bónda af hinni hálflendu Árbæjar. Þau voru dæmd til dauða á Kópavogsþingi 14. nóvember 1704 fyrir morð á eiginmanni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni. Í kjölfar dómsins var Sigurður hálshöggvinn en Steinunni drekkt í Kópavogslæknum. Þetta voru síðustu aftökur Kópavogsþings.

Rannsókn á Kópavogsþingstað

Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur skrifaði bókina Rannsókn á Kópavogsþingstað (1986) um uppgröft og rannsóknir á minjum sem fundist hafa á þingstaðnum.

 

Ekki nákvæm staðsetning.

Skildu eftir svar