Melar í Svarfaðardal

Mynd Wikipedia

Fyrsta galdrabrennan

Melar eru bær í Svarfaðardal þar sem fyrsta galdrabrenna á Íslandi fór fram árið 1625. Maðurinn sem brenndur var hét Jón Rögnvaldsson frá Hámundarstöðum á Árskógsströnd, bróðir Þorvalds á Sauðanesi á Upsaströnd. 29 ár liðu þar til  næsta galdrabrenna fór fram á Íslandi, nánar tiltekið í Trékyllisvík á Ströndum og er upphaf „brennualdar“ venjulega miðað við þá brennu. Jóni var gefið að sök að hafa vakið upp draug og sent hann að Urðum í Svarfaðardal þar sem hann drap hesta og gerði annan óskunda. Jón neitaði sök en rúnablöð sem fundust heima hjá honum þóttu sanna sekt hans.

Magnús Björnsson sýslumaður

Sá sem stóð fyrir brennunni var Magnús Björnsson (1595-1662), ungur sýslumaður frá Munkaþverá í Eyjafirði, dóttursonur Staðarhóls-Páls og náfrændi Brynjólfs biskups. Amma hans var Helga Aradóttir, dóttir Ara Jónssonar, sonar Jóns Arasonar biskups. Magnús lét einnig höggva prestsson úr Eyjafirði árið 1637, Guðmund nokkurn Jónsson, fyrir það að eignast barn með systur konu sinnar. Þegar Magnús lést var hann einn af ríkustu mönnum landsins.

 

Skildu eftir svar