Barónsstígur 4
Fyrsta steinsteypta húsið í Reykjavík
Fyrsta steinsteypta húsið í Reykjavík var fjós undir 50 kýr sem reist var árið 1899 og stendur enn við Barónsstíg 4.
Baróninn frá Hvítarvöllum
Fjósið byggði dularfullur franskur barón, Charles Gouldrée Boilleau, oftast kenndur við Hvítárvelli í Borgarfirði sem hann keypti af Andrési Fjeldsted 1898 fyrir 30.000 krónur. Baróninn var heimsmaður mikill, talaði fjölda tungumála og lék á selló. Hann hélt nokkra tónleika í Reykjavík og þóttust bæjarbúar aldrei hafa heyrt jafn fögur hljóð koma frá þessu hljóðfæri. Charles barón framdi sjálfsmorð í Englandi 1901. Þórarinn Eldjárn skrifaði skáldsöguna Baróninn sem hann byggði á sögu Charles Gouldrée Boilleau. Barónsstígur tekur nafn sitt af fjósi barónsins.