Búðardalur á Skarðsströnd
Búðardalur er bær og fyrrum kirkjustaður á Skarðsströnd í Dalasýslu sem oft er getið í Sturlungu. Samkvæmt Landnámu bjó hinn konungborni landnámsmaður Geirmundur heljarskinn hér fyrsta vetur sinn á Íslandi. Kirkjan í Búðardal var aflögð árið 1849 en klukka úr kirkjunni sem talin er vera frá 13. öld er nú varðveitt í Byggðasafni Dalamanna.
Sýslumannssetur á 18. öld
Búðardalur var stórjörð sem m.a. átti eyjaklasann Akureyjar út af minni Gilsfjarðar. Einn þekktasti ábúandi jarðarinnar var Magnús Ketilsson (1732-1803) sýslumaður, systursonur Skúla Magnússonar fógeta, en hann var þekktur fyrir skrif sin og tilraunir í jarðrækt. Hann var afkastamikill höfundur og voru bækur hans prentaðar í prentsmiðju hans í Hrappsey. Magnús og afkomendur hans gegndu embætti sýslumanns Dalamanna í samfleitt 105 ár.
Séra Friðrik Eggerz (19. öld)
Dóttursonur Magnúsar var séra Friðrik Eggerz (1802-1894), sonur séra Eggerts Jónssonar á Ballará en sjálfur oftast kenndur við Akureyjar þar sem hann bjó í nær 30 ár. Æviminningar hans, Úr fylgsnum fyrri aldar I-II, sem hann skrifaði í 3ju persónu, komu út á árunum 1950-1952. Friðrik var tengdafaðir Jóns Péturssonar (1812-1896), háyfirdómara og alþingismanns. Jón var einn af svonefndum Víðivallabræðrum og faðir Sturlubræðra. Lúðvík Kristjánsson ritaði skemmtilega grein í Frjálsa þjóð (1960), Heimasæturnar í Akureyjum, um séra Friðrik og biðla dætra hans, þar á meðal um samskipti þeirra Friðriks og Jóns Péturssonar en engir sérstakir kærleikar voru milli þessara manna. Sonarsonur séra Friðriks var Sigurður Eggerz, forsætisráðherra og skáld. Var Friðrik jarðsettur í kirkjugarðinum í Búðardal.