Engey á Kollafirði
Engey er um 40 hektara eyja á Kollafirði, þriðja stærsta eyjan í Faxaflóa. Talið er að eyjan hafi verið í byggð eða nýtt frá upphafi byggðar á Íslandi og vitað er að fyrsta kirkjan var reist í eynni árið 1379. Í Njáls sögu segir að um miðbik 10. aldar hafi eyjan verið í eigu Þórarins Ragabróður og Glúms bróður hans, annars eiginmanns Hallgerðar Langbrókar. Á 19. öld störfuðu landsþekktir bátasmiðir í Engey og er sérstakt bátalag, Engeyjarlagið, kennt við eyjuna. Þekktastur þessara bátasmiða var Kristinn Magnússon (1827-1893) en talið er að hann hafi smíðað um 220 báta á árunum 1853-1875. Búið var í eynni til ársins 1950. Árið 1966 voru þær byggingar sem enn stóðu uppi í eynni brenndar til kaldra kola (sjá frétt).
Engeyjarættin
Fyrrnefndur Kristinn Magnússon var kvæntur Guðrúnu Pétursdóttur, dóttur Péturs Guðmundssonar og Ólafar Snorradóttur frá Engey, en afkomendur þeirra teljast til svonefndrar Engeyjarættar. Guðrún Pétursdóttir, barnabarn þeirra hjóna, var móðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra (1961 og 1963-1970), Péturs Benediktssonar alþingismanns (1967-1969) og bankastjóra og Sveins Benediktssonar síldarspekúlants. Hálfsystir Guðrúnar, Kristín Bjarnadóttir, var eiginkona Helga Tómassonar yfirlæknis á Kleppi og móðir Ragnhildar Helgadóttur ráðherra (1983-1987). Meðal annarra afkomenda Guðrúnar Pétursdóttur og Benedikts Sveinssonar má nefna Björn Bjarnason ráðherra (1995-2009), Guðrúnu Pétursdóttur forsetaframbjóðanda, Valgerði Bjarnadóttur alþingismann (2009-2016), Halldór Blöndal ráðherra (1991-1999), Ingimund Sveinsson arkitekt, Benedikt Jóhannesson ráðherra (2017) og Bjarna Benediktsson ráðherra (2013- ).
Stríðsminjar
Í heimsstyrjöldinni síðari reisti erlenda setuliðið neðanjarðarstjórnstöð og virki í Engey í þeim tilgangi að verja innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn. Vegna einangrunar staðarins hafa þessa minjar varðveist sérstaklega vel.