Hlemmur (Hlemmtorg)
Rauðarárstígur í Reykjavík er kenndur við Rauðará eða Rauðarárlæk (upphaflega Reyðará sbr. silungur) sem rann úr Norðurmýrinni til sjávar rétt norðan við þar sem nú heitir Hlemmtorg eða Hlemmur. Þótt aðalleiðin í austur frá Reykjavík hafi um aldir legið um Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Réttarholt þá var strandleiðin einnig vinsæl en sú leið lá m.a. inn að þvottalaugunum í Laugardal. Árið 1885 var reist brú yfir Rauðará við Laugaveg en brúin þótti hins vegar slík hrákasmíð að hún fékk á sig nafnið Hlemmur.
Gasstöðin
Fyrstu stóru mannvirkin sem risu við Hlemm voru hluti af gasstöðinni sem reist var á árunum 1909-1910. Um var að ræða stóran gasgeymi, verksmiðjuhús og íbúðarhús verksmiðjustjóra sem jafnframt var nýtt undir skrifstofur fyrirtækisins og verslun með gasvörur. Frá gasstöðinni voru lagðar gasleiðslur í mörg hundruð hús í Reykjavík til eldunar og lýsingar og á tímabili var rekin brauðgerð í verksmiðjuhúsinu. Íbúðarhúsið stendur enn við Hverfisgötu 115. Gasframleiðslu var hætt árið 1955 og stuttu síðar voru allar byggingarnar rifnar nema íbúðarhúsnæðið.
Vatnsþróin
Ein af þeim vatnsþróm sem til urðu í Reykjavík eftir að Vatnsveitan var tekin í notkun 1909 var á Hlemmi. Vatnsþróin, sem var byggð til að brynna hestum, var reist rétt austan við Hlemm árið 1912. Þegar strætisvagnaferðir hófust gekk þessi áfangastaður jafnan undir nafninu „Vatnsþróin“. Aðrar þrær til að brynna hestum voru byggðar á Lækjartorgi og við Laugaveg 16. Klyfjahesturinn, verk Sigurjóns Ólafssonar sem stendur við austanverðan Hlemm, er til minnis um þennan tíma.
Samgöngumiðstöð
Eins og áður sagði var töluverð umferð yfir brúna við Hlemm um aldamótin 1900 og strax árið 1905 höfðu hjónin Guðmundur Hávarðsson og Valdís Gunnarsdóttir opnað veitingahúsið Norðupólinn þar sem nú er Hverfisgata 125. Það var hins vegar ekki fyrr en 1931, þegar Hlemmur varð endastöð fyrir leið 1 hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, að þar tók að myndast vísir að eiginlegri samgöngumiðstöð. Þegar borgaryfirvöld ákváðu svo árið 1970 að Hlemmur skyldi verða aðalmiðstöð Strætisvagna Reykjavíkur þá varð Hlemmtorg ein helsta samgöngumiðstöð Reykjavíkur. Bygging þjónustumiðstöðvar á árabilinu 1977-1978 styrkti enn frekar stöðu Hlemms í þessu tilliti. Eins og stundum gerist með samgöngumiðstöðvar, eins og járnbrautarstöðvar, þá varð þjónustumiðstöðin á Hlemmi fljótt athvarf þeirra sem áttu hvergi höfði sínu að halla og unglinga í leit að félagsskap. Gekk þessi yfirtaka á þjónustumiðstöðinni svo langt að almennir farþegar sáu sér þann vænstan kost að bíða eftir strætó utandyra. Árið 2018 var talið að um 30 þúsund manns færu gangandi, hjólandi eða akandi um Hlemm dag hvern.
Lögreglustöðin
Upp úr 1960 var lögreglustöðin við Pósthússtræti orðin allt of lítil og starfsemi lögreglunnar dreifð út um borg og bý. Árið 1961 hófst bygging nýrrar lögreglustöðvar við Hlemm á þeim stað þar sem gasstöðin hafði staðið. Lögreglustöðin var tekin í notkun í áföngum allt til ársins 1972 þegar stöðinni við Pósthússtræti var endanlega lokað.
Heimildir
Bjarki Vigfússon. Hlemmur – HA.
Páll V. Bjarnason og Helga Maureen Gylfadóttir. Húsakönnun: Snorrabraut – Hverfisgata – Rauðarárstígur – Laugavegur. Minjastofnun 2004.
Páll Líndal. Reykjavik – sögustaður við sund. Reykjavík 1987.