Laufásvegur 53/55

Hér byggðu bræður

Laufásborg er heiti á tveimur sambyggðum húsum við Laufásveg 53 og 55 en upphaflega voru húsin skráð við Bergstaðastræti 58. Húsin byggðu bræðurnir og athafnamennirnir Friðrik og Sturla Jónssynir, betur þekktir sem Sturlubræður, árið 1922. Friðrik og Sturla voru synir Jóns Péturssonar sýslumanns, alþingismanns og háyfirdómara en hann var einn af svonefndum Víðivallabræðrum sem kenndir voru við Víðivelli í Skagafirði. Bræður Jóns voru Brynjólfur Fjölnismaður og Pétur, biskup og alþingismaður.

Bræður saman í viðskipti

Friðrik las lögfræði í Kaupmannahöfn og guðfræði í Háskóla Íslands en í stað þess að leita eftir vígslu snéri hann sér að búðarrekstri með bróður sínum sem stofnað hafði búðina Sturlubúð í Aðalstræti 14. Þeir urðu fljótlega stórtækir í íslensku viðskiptalífi. Þeir ráku til að mynda stórt bú í Brautarholti, stórkúabú í Briemfjósi, stunduðu útgerð og olíuviðskipti og stofnuðu Títanfélagið með Einari Benediktssyni. Bræðurnir bjuggu stutt í húsunum á Laufásvegi 53 og 55 en byggðu sér önnur hús á Laufásvegi 49 og 51, nú með smá bili milli húsanna. Reykjavíkurborg keypti húsin á Laufásvegi 53 og 55 árið 1950 og hefur rekið þar leikskólann Laufásborg.

Fjölskylda

Ása Guðmundsdóttir Wright (1892-1971) var systurdóttir Sturlubræðra og Sturla Friðriksson (1922-2015), erfðafræðingur og rithöfundur, var sonur Friðriks Jónssonar. Hér má lesa viðtal við Sturlu sem birtist í Morgunblaðinu í september 2014 undir fyrirsögninni „Ég var þessi drengur.“

 

Skildu eftir svar