Olnbogi í Vestmannaeyjum

Á leið suður Höfðaveg eða Ofanleitisveg, rétt ofan núverandi byggðar er Olnbogi. Þar má sjá stakkstæði, sem var löngu horfið í grassvörðinn, en grafið upp fyrir fáum árum. Stakkstæðið er í minna lagi, en dæmigerður grjótreitur, þar sem saltfiskur var lagður til og þurrkaður. Frá seinni hluta 18. aldar jókst saltfisksverkun á Íslandi smátt og smátt og var orðin almenn um miðja þá 19., og samfara auknum saltfisksútflutningi jókst fjöldi stakkstæða á Heimaey. Var grjót rifið upp á haustin, flutt á vögnum og lagt til í reiti, hvar sem hægt var að koma því fyrir. Á sólríkum sumardögum var Heimaey hvít af saltfisksbreiðum langt suður á eyju og fólk, oft kvenfólk og unglingar í meirihluta, við vinnu að breiða út fisk, stafla honum og endurstafla, “ stakka í stakka“, og fergja hann. Var þessi vinnsluaðferð geysilegt erfiði og mikið strit. Stakkstæðið við Olnboga er til vitnis um það, hve langt saltfisksvinnslan var komin frá aðalatvinnusvæði Eyjaskeggja næst höfninni. Notkun hestvagna á öðrum tug 20. aldar gerði þetta mögulegt, en þeir leystu handbörur og handvagna að nokkru af hólmi.  Menn létu nábýli við hinn illræmda Olnbogadraug þar engu breyta né verur eða vættir af öðrum toga!

 

Skildu eftir svar