Þingholtsstræti 25 (Farsótt)

Mynd ESSBALD

Á lóð nr. 25 við Þingholtsstræti, á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs, stendur tvílyft timburhús með risi og hlöðnum kjallara, byggt árið 1884 á lóð Jóns Árnasonar bókavarðar og þjóðsagnasafnara.

Fyrsta sérbyggða sjúkrahúsið

Sjúkrahúsfélag Reykjavíkur stóð fyrir byggingunni en húsið teiknaði Helgi Helgason trésmiður og tónskáld. Húsið var eina sjúkrahús borgarinnar þar til Landakotsspítali var byggður árið 1902. Hér var Læknaskólinn til húsa í 18 ár. Ekki fékkst fé úr Landsjóði til að byggja spítalann en fé frá sölu Klúbbhússins við enda Aðalstrætis rann til byggingarinnar en þar hafði Sjúkrahúsfélag Reykjavíkur rekið sjúkraþjónustu á efri hæð hússins frá árinu 1866. Það má fastlega gera ráð fyrir því að sjúklingar hafi almennt fagnað því að losna við hávaðann frá skemmtistaðnum um helgar.

Krufning Þórðar Malakoff

Bak við húsið var líkhús spítalans og var það notað til krufninga á meðan Læknaskólinn var hér til húsa. Þegar læknar komust loks yfir lík Þórðar „Malakoff “ Árnasonar var hann krufinn í líkhúsinu. Hér má sjá ljóð Björns M. Ólsen um ótímabæra tilraun læknanna til að komast yfir „lík“ Þórðar Árnasonar.

Farsótt

Fljótt kom í ljós að sjúkrahúsið var of lítið og óhentugt til lækninga og lagðist sjúkrahússtarfsemin að mestu niður árið 1902. Á árunum 1910 til 1919 var húsið að mestu notað sem leiguhúsnæði en árið 1919 keypti bærinn húsið og breytti því í farsóttarsjúkrahús fyrir sjúklinga í einangrun. María Maack (1889-1975) yfirhjúkrunarkona starfaði á stofnuninni í tæpa hálfa öld, frá 1920 til 1964.

Ekki má rugla farsóttarhúsinu við Þingholtsstræti saman við sóttvarnarhúsið í Ánanaustum þar sem ungar stúlkur sem dæmar höfðu verið fyrir samskipti við hermenn voru vistaðar á stríðsárunum.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar