Ásvallagata 79

Á fjórða áratug síðustu aldar átti sér stað mikil uppbyggging íbúðarhúsnæðis í Vesturbæ Reykjavíkur og vestan Bræðraborgarstígs reis húsahverfi sem gengið hefur undir nafninu Samvinnubústaðirnir. Ásvallagata var ein af þessum götum sem þá urðu til og er gatan líklega nefnd eftir bænum Ás sem stóð við Sólvallagötu. Húsin sem hér risu voru í svokölluðum fúnkisstíl sem þá var mjög að ryðja sér til rúms í  Reykjavík, ekki síst vegna áhrifa arkitektanna Sigurðar Guðmundssonar og Einars Sveinssonar. Hús Ólafs Thors að Garðastræti 41 er oft talið fyrsta húsið í fúnkisstíl sem reist var hér á landi. Þau fúnkishús sem risu við Ásvallagötu voru flest teiknuð af Þóri Baldvinssyni. Húsin voru kassalaga með flötum þökum og horngluggum. Hús númer 79 við Ásvallagötu byggði Finnbogi Rútur Þorvaldsson verkfræðingur og kona hans Sigríður Eiríksdóttir og hér ólst Vigdís Finnbogadóttir dóttir þeirra upp. Vigdís fæddist árið 1930 og var kjörinn forseti Íslands árið 1980, þá fyrsta konan til að verða kosin þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum.

 

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar