Bjarmaland í Hörðudal
Bjarmalandsför Sveins Gunnarssonar 1915
„Neðarlega í sjálfum Hörðudal er bærinn Bjarmaland, sem þó hefur ekki borið það nafn nema tæp hundrað ár. Hér stóð áður bærinn Geitastekkur eða Geitastekkar, en við hann kenndi sig alkunnur íslenskur ferðalangur seint á 18. öld, Árni Magnússon frá Geitastekk, sem komst alla leið til Kína og ritaði ferðasögu um ævintýri sín. Árið 1915 kom þangað sem ráðsmaður einhleyprar konu Sveinn Gunnarsson frá Mælifellsá í Skagafirði. Þau bjuggu þar ekki nema tvö ár, en á þeim tíma fékk Sveinn leyfi til að breyta nafni bæjarins í Bjarmaland, og sagði þessi vistaskipti sín hafa verið hálfgerða Bjarmalandsför.“
Árni Björnsson. Dularfull örnefni í Dölum. Budardalur.is
Ferðir Árna frá Geitastekk á 18. öld
Árni þessi Magnússon var ættaður frá Snóksdal en var jafnan kenndur við Geitastekk. Hann var bóndi en eftir að hann missti konu sína brá hann búi og lagðist í ferðalög í 44 ár (1753-1797) áður en hann snéri aftur heim alkominn. Á þessum 44 árum heimsótti hann ættjörðina aðeins einu sinni. Á þessum árum gerðist hann m.a. sjálfboðaliði í sjóher Katrínar miklu þar sem hann gegndi hlutverki fallbyssuskyttu.