Grófin í Reykjavík
Grófin er heiti á horfnum fjörukrika í Reykjavík sem staðsettur var þar sem nú er Vesturgata 2-4. Talið er að hún hafi verið lendingastaður og uppsátur fyrir báta Víkurbóndans og annarra bæja sem stóðu þar sem Grjótaþorp er nú. Jafnvel er talið að Grófin hafi verið uppsátur- og útróðrarstaður frá upphafi byggðar í Reykjavík fram á 20. öldina. Vegna uppfyllingar og hafnargerðar er Grófin nú um 150-170 metra frá sjó og lítið sem minnir á hana nema stuttur vegaspotti sem liggur frá Vesturgötu og niður að Geirsgötu og svonefnt „Grófartorg“ þar sem gamla Zimsen-húsið, sem áður stóð við Hafnarstræti 21, var sett niður. Þar er nú (2018) veitingahúsið Fiskifélagið til húsa.