Lækurinn

Lækurinn, sem Lækjargata í Reykjavík er kennd við, rann úr norðausturhorni Tjarnarinnar til sjávar. Þótt oftast væri hann vatnslítill og saklaus þá átti hann til að flæða yfir bakka sína og alla leið inn á Austurvöll. Ýmislegt var gert til að stemma stigu við þessum flóðum, eins og að þrengja og hækka árbakkana, en um 1850 var reynt að afmarka árfarveginn betur með hlöðnu grjóti. Nokkrar brýr voru byggðar yfir lækinn, bæði timbur- og steinbrýr. Þannig var brú í framhaldi af Bakarabrekkunni  (Bankastræti) og önnur fyrir neðan Lærða skólann (Skólabrú). Árið 1913 var lækurinn settur í stokk sem bæði breikkaði götuna sem til varð meðfram læknum (Lækjargötu) og eyddi einnig þeim óþef sem lengi hafði verið fylgifiskur lækjarins.

*

Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, hefur dregið upp mynd af því hvernig „endurlífgaður“ lækurinn gæti litið út.

 

Skildu eftir svar