Lakagígar

Lakagígar eru um 27 km löng gígaröð vestan Vatnajökuls sem varð til í Skaftáreldum 1783-1784.

Skaftáreldar

Skaftáreldar byrjuðu á hvítasunnudag þann 8. júní 1783 að undangenginni langri jarðskjálftahrinu og stóð gosið fram í febrúar 1784.  Skaftáreldar eru eitt mesta hraungos jarðarinnar á sögulegum tíma og er talið að 14-16 km3 af kviku hafi komið úr Lakagígum í þessu gosi og að hraunið þeki um 600 km2 svæði. Þetta er margfalt meira af gosefnum en komu upp í Heklugosinu 1947. 

Hnattræn áhrif

Áhrifa gossins gætti víða um heim. Aska og brennisteinsmóða drógu úr inngeislun sólar um mest alla Evrópu, hiti minnkaði og öskufall eyðilagði uppskeru og bithaga.  Til dæmis er talið að tugir þúsunda manna hafi látið lífið í Bretlandi af völdum gossins og ýmsir vilja meina að Skaftáreldar hafi valdið uppskerubresti í Frakklandi sem með öðru leiddi til frönsku byltingarinnar. 

Rannsóknir

Nýlegar rannsóknir benda einnig til þess að gosið hafi lækkað yfirborð Nílarfljóts vegna úrkomubrests. Talið er að hér á landi hafi um 75% búfjár og 20% íbúa fallið af völdum gossins.

Skildu eftir svar