Melavöllurinn við Suðurgötu
Helsti íþróttaleikvangur landsins
Melavöllurinn var íþróttavöllur á Melunum sem var á horni Suðurgötu og Hringbrautar. Völlurinn var helsti íþróttavöllur landsins á árunum 1926-1957 en eftir 1957 tók Laugardalsvöllurinn smám saman við hlutverki Melavallar. Völlurinn, sem var malarvöllur, var best þekktur sem knattspyrnuvöllur en einnig var aðstaða á svæðinu fyrir aðrar íþróttagreinar eins og frjálsar íþróttir, tennis, badminton, glímu og skautahlaup. Þótt oft sé talað um „gamla“ og „nýja“ Melavöll þá var gamli íþróttavöllurinn, sem var byggður árið 1911, vestan megin við Melavöllinn og gekk einfaldlega undir nafninu „Íþróttavöllurinn.“ Sá völlur var fyrsti fullgerði knattspyrnuvöllurinn á Íslandi. Melavellinum var endanlega lokað árið 1984.
Valbjörn Þorláksson
Einn af þeim íþróttamönnum sem lengi æfði og keppti á Melavellinum var Valbjörn J. Þorláksson. Valbjörn fæddist á Siglufirði þann 9. júní 1934 og voru foreldrar hans þau Þorlákur Anton Þorkelsson og Ásta Júlíusdóttir. Á unglingsárum hans flutti fjölskyldan til Keflavíkur og eftir það æfði Valbjörn hjá mörgum af stærstu félögunum í Reykjavík: KR, Ármanni og ÍR. Valbjörn var mjög alhliða íþróttamaður svo tugþrautin var nærtækur valkostur fyrir hann. Sérstaklega átti stangarstökkið hug hans og hjarta. Valbjörn tók þátt í þrennum Ólympíuleikum, 1960, 1964 og 1968 og árið 1965 varð hann Norðurlandameistari í tugþraut. Árið 1979, þá 45 ára gamall, varð Valbjörn heimsmeistari öldunga í tugþraut í Hannover í Þýskalandi. Hann var tvívegis kosinn íþróttamaður ársins hér á landi, 1959 og 1965. Árið 1975 opnaði Valbjörn mini-golf stað á Skólavörðuholtinu þar sem veisluhúsið Hábær hafði verið til húsa. Valbjörn lést árið 2009, 75 ára gamall.