Kirkjuvegur 23 í Vestmannaeyjum

Davíð Steingrímsson, Heimaslóð

Kirkjuvegur 23, þáverandi útibú Útvegsbanka Íslands í Eyjum, var heimili Helga Ólafssonar, skákmanns, sem fæddur er 15. ágúst 1956. Helgi átti æsku- og unglingasár í Eyjum á 7. áratug seinustu aldar og fram á þann 8. Hann vakti snemma athygli Eyjamanna fyrir áhugamál sín, skákina, en sú íþrótt var þá að miklu leyti stunduð af mönnum, sem voru komnir af stuttbuxnaaldrinum. Helgi reyndist hins vegar enginn meðalmaður við taflborðið, og þegar jafnaldrar hans spiluðu fótbolta eða flæktust um á bryggjunum lá hann yfir skákbókmenntum og tileinkaði sér helstu fræði þeirra. Helgi var aðeins 16 ára, þegar skákmeistaratitill Vestmannaeyja féll honum í skaut og í kjölfarið fylgdu fleiri titlar. Eftir Heimaeyjargosið 1973 lét Helgi verulega að sér kveða í skáklífi Íslendinga, og árangurinn lét ekki á sér standa. Hann varð alþjóðlegur meistari árið 1978, stórmeistari 1985 og vann fjölmarga, frækna sigra utanlands sem innan. Helgi er enn mjög virkur í íslensku skáklífi og hefur helgað skákinni starfsævi sína sem skákmaður, kennari, skákskrifari og skýrandi í fjölmiðlum, við stjórnunarstörf ásamt fjölmörgu öðru, sem tengist skákíþróttinni.

 

Skildu eftir svar