Snæfell í Vestmannaeyjum

Snæfell, Hvítingavegur 8, var æskuheimili Ásgeirs Sigurvinssonar, knattspyrnumanns, sem fæddur er í Vestmannaeyjum 8. maí 1955. Hann varð ungur heillaður af fótboltasparki og náði fljótt einstakri fótfimi og knatttækni. Ásgeir varð margfaldur Íslandsmeistari með yngri flokkum Eyjaliða, en hélt 18 ára gamall utan til Belgíu sem atvinnumaður í knattspyrnu. Þar lék hann í mörg ár með Standard Liege, en fór svo árið 1981 yfir til Þýskalands, þar sem hann spilaði fyrst með Bayern Munchen og síðar með UfB Stuttgart. Með því liði varð Ásgeir Þýskalandsmeistari árið 1984 og sama ár var hann kjörinn knattspyrnumaður Þýskalands. Var Ásgeir nú orðinn vel þekktur knattspyrnumaður í Evrópu, burðarás til margra ára með íslenska landsliðinu og í kjölfarið margverðlaunaður s.s. hér á landi sem íþróttamaður Íslands tvívegis. Ásgeir hætti knattspyrnuiðkun árið 1990. Hann er án efa einn af allra bestu knattspyrnumönnum sem landsmenn hafa eignast.

 

Skildu eftir svar