Árið 1550

Minnisvarði um Jón Arason í Skálholti

1550 er árið sem siðaskiptin á Íslandi eru miðuð við því á þessu ári var Jón Arason biskup (66 ára) og synir hans Björn (44 ára) og Ari (42 ára) hálshöggnir í Skálholti. Þar með var síðustu stóru hindruninni fyrir upptöku Lútherstrúar úr vegi rudd hér á landi. Í kjölfar aftökunnar hófst  stórfelld eignaupptaka konungs á jörðum kirkjunnar og niðurlagning kaþólskra klaustra en með siðaskiptunum varð konungur æðsti maður kirkjunnar. Fyrsta klaustrið sem lagt var niður var Þingeyrarklaustur en í kjölfarið fylgdu síðan önnur klaustur eins og nunnuklaustrið á Reynistað og Skriðuklaustur. Guðbrandur Þorláksson, síðar biskup og Biblíuútgefandi, var níu ára þegar þetta gerðist og bjó á Mel í Miðfirði með foreldrum sínum. Fram eftir ári sat Biskupinn í Skálholti, Marteinn Einarsson, sem hlotið hafði vígslu sem Skálholtsbiskup árinu áður, í fangelsi hjá Jóni Arasyni og margir forsvarsmenn lútherskra voru þvingaðir til að taka upp kaþólskan sið eða hraktir úr landi. Um sumarið hafði Jón Arason og synir hans farið mikinn á Alþingi og fékk Jón þingið til að samþykkja að Íslendingar héldu kaþólskum sið. Eftir þingið riðu þeir feðgar til Viðeyjar, ráku Laurentius Mule hirðstjóra og aðra Dani til skips og endurvígðu klaustrið. Það kom því í hlut staðgengils Mule, Kristjáns skrifara í Skálholti, að ákveða örlög Jóns og sona hans um haustið. Það gerðist eftir að Jón og synir riðu vestur í Dali til að snúa Daða í Snóksdal, mági Marteins biskups, til réttrar trúar með góðu eða illu. Daði varð hins vegar fyrri til og handtók þá feðga að Sauðafelli í Miðdölum og afhenti Kristjáni skrifara í Skálholti. Að höfðu samráði við Jón Bjarnason ráðsmann var niðurstaðan sú að öxin og jörðin geymdu þá feðga best og voru Jón og synir hans hálshöggnir í Skálholti þann 7. nóvember 1550.

Skildu eftir svar