Árið 1967

Mynd Guðjón Einarsson

Árið 1967 voru Íslendingar um 200 þúsund og Reykvíkingar um 80 þúsund. Haustið 1966 hafði ríkisútvarpið hafið sjónvarpsútsendingar og lengi fram eftir árinu 1967 takmörkuðust útsendingar við tvö kvöld í viku. Þann 15. maí var fyrsta íslenska sjónvarpsleikritið frumsýnt en það var Jón gamli eftir Matthías Jóhannessen. Það var ekki fyrr en í ágúst 1967 sem útsendingardögum fjölgaði í sex en ekkert sjónvarp var í júlí. Ásgeir Ásgeirsson var forseti landsins en undirbúningur fyrir næstu forsetakosningar var þegar hafinn og nafn Gunnars Thoroddsen sendiherra var komið á flot. Þann 10. mars varð stórbruni í Reykjavík þegar þrjú hús á horni Vonarstrætis og Lækjagötu brunnu til grunna og stórhýsi Iðnaðarbankans skemmdist. Í júní lauk loks Surtseyjargosinu en það hafði staðið yfir í þrjú og hálft ár og í sama mánuði kom fyrsta farþegaþota Íslendinga, Gullfaxi, til landsins. Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem hafði verið við völd síðan 1959 (undir forsæti dr. Bjarna Benediktssonar frá 1963) endurnýjaði umboð sitt í Alþingiskosningunum 11. júní. Valur varð Íslandsmeistari karla í knattspyrnu annað árið í röð en Íslenska landsliðið í fótbolta upplifði sitt stærsta tap á Idrætsparken í Kaupmannahöfn þann 23. ágúst þegar liðið tapaði 14-2 gegn danska landsliðinu (4-0 eftir 15 mínútna leik). Póstverslunin Hagkaup í eigu Pálma Jónssonar opnaði sína fyrstu verslun við Miklatorg í Reykjavík og í byrjun voru flestar vörurnar í pappakössum í hillum verslunarinnar. Nýja bíó sýndi Grikkjan Zorba með Anthony Quinn í aðalhlutverki við góðar undirtektir og á fjölunum var saga Fjalla-Eyvindar flutt við ekki minni vinsældir. Í nóvember yfirgaf síðasti íbúinn Flatey á Skjálfanda. Af opinberum framkvæmdum má nefna stofnun Þjóðgarðs í Skaftafelli í ágúst, opnun brúar yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi í september, opnun Strákaganga í nóvember og opnun Borgarspítalans í Fossvogi í desember.

Skildu eftir svar