Höskuldsstaðir á Skagaströnd

Ættaróðal Stephensens-ættarinnar

Höskuldsstaðir eru bær á Skagaströnd í Húnaþingi. Hér fæddist Ólafur Stefánsson (1731-1812) stiftamtmaður og ættfaðir Stephensen-ættarinnar eða Stefánunga eins og afkomendur og ættingjar Ólafs voru stundum kallaðir. Eftir nám í Hólaskóla hélt Ólafur til Kaupmannahafnar þar sem hann lauk lögfræðiprófi árið 1754. Fyrsta starf Ólafs eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn var starf bókhaldara við Innréttingarnar í Reykjavík en árið 1780 varð Ólafur amtmaður í Norður- og Austuramti. Árið 1787 varð hann amtmaður í Vesturamtinu en 1790 varð hann jafnframt stiftamtmaður. Ólafur andaðist í Viðey 1812. Kona Ólafs var Sigríður Magnúsdóttir (1734-1807).

Völd og áhrif

Mörgum manninum þótti nóg um völd Stephensen-ættarinnar á síðustu áratugum 18. aldar og árið 1792 kom út bók í Kaupmannahöfn sem fjallaði um ættinga Ólafs og stöðu þeirra í hinu opinbera valdakerfi undir nafninu Ærefrygt. Liste over Hr. Stiftamtmand Oluf Stephensens Familie i Island. Allene de beregnede som sidde i publiqve Embeder 1791. Höfundur bókarinnar var Halldór Jakobsson, föðurbróðir Jóns Espólíns frá Espihóli. Á þeim tíma var systursonur Ólafs, Stefán Þórarinsson, amtmaður í Norður- og Austuramti (og ættfaðir Thorarensen-ættarinnar), hálfbróðir hans, Sigurður Stefánsson, var biskup á Hólum og tengdasonur hans, Hannes Finnson, var Skálholtsbiskup (og ættfaðir Finsen-ættarinnar). Árið eftir útkomu bókarinnar tók sonur hans, Magnús, við embætti Skúla Magnússonar fógeta. Eru þetta aðeins nokkur dæmi um stöðu Stephensen-ættarinnar í embættismannakerfinu.

 

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar