Heiðarvegur 44 í Vestmannaeyjum
Páll Þorbjörnsson átti heima á Heiðarvegi 44 en hann varð þekktur í Eyjum og víðar fyrir einstakt björgunarafrek á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Páll var þá skipstjóri á flutninga- og fiskibátnum Skaftfellingi, sem sigldi á stríðsárunum með fisk til Bretlands. 20. ágúst 1942 var báturinn á einni slíkri siglingu á leið sinni með ísfisk til Fleetwood, þegar hann kom að þúst í sjónum Reyndist vera um þýskan kafbát að ræða, sem maraði í hálfu kafi, laskaður eftir árás bandarískrar flugvélar úr fylgdarsveit skipalestar yfir Atlantshafið. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að kafbátsliðar stóðu ýmist í turni kafbátsins eða héngu utan á honum og tókst Páli og skipshöfn að ná þeim um borð í Skaftfelling eftir nokkrar tilraunir í þungum sjó. Voru Þjóðverjarnir 52 að tölu og eflaust björguninni fegnir, en Páll skipstjóri skipaði þeim öllum fram í bátinn, hafði vélbyssu tilbúna í stýrishúsinu og stefndi ótrauður áfram til Bretlandseyja með fiskfarminn. Skipverjar Skaftfellings voru þó hvergi frjálsir sinna ferða því breskur tundurspillir kom að bátnum síðar þennan örlagaríka dag, vildi snúa honum með Þjóðverjana til Reykjavíkur en tók þá loks um borð til sín og Skaftfellingur hélt áfram ferð sinni. Páll skipstjóri var tekinn til yfirheyrslu, þegar komið var til Fleetwood, saga hans að björgun Þjóðverjanna þótti Bretum ótrúverðug og sérstaklega að 7 íslenskir sjómenn á litlum fiskibáti hefðu þor og getu til þess að taka yfir í bát sinn fjölda óvinahermanna! En Skaftfellingur komst heim til baka án mikilla annarra eftirmála og ferð skipverja þótti hin mesta frægðarför. Þjóðverjar heiðruðu löngu síðar tvo eftirlifandi skipverja af Skaftfellingi fyrir “mannúðardáð” á æsingatímum stríðsins. Var annar þeirra Andrés Gestsson, Andrés blindi, kunnur borgari í Eyjum og síðar í Reykjavík.
Páll Þorbjörnsson var áberandi í bæjarlífinu í Eyjum fyrir og um miðja seinustu öld. Hann var m.a. virkur í félags- og stjórnmálum, sat í bæjarstjórnum og eitt kjörtímabil á Alþingi sem landskjörinn þingmaður. Páll lést árið 1975.