Illugahellir og Illugaskip í Vestmannaeyjum
Við gatnamót Illugagötu og Höfðavegar í Vestmannaeyjum má sjá tvo hraunhóla, sem eru til marks um hraunið, sem einu sinni einkenndi landslagið á þessum slóðum. Hólarnir heita Illugahellir og Illugaskip, og gatan hefur verið nefnd eftir þeim, Illugagata. Þótt enginn viti, hvaðan nafnið kemur, hefur hraunhólunum verið þyrmt í umróti gatna- og húsaframkvæmda og mynda eyland, sem stingur í stúf við línulegt og ferkantað nágrennið. Ýmsar þjóðsögur hafa verið uppi um nöfnin, s.s. um Illuga, sem haft hafi aðsetur sitt í hellinum og geymt skip sitt á hvolfi, svo sem enn má sjá! Aðrar sögur tengja Illugahelli við Ofanleitisklerk frá 18. öld, Illuga Jónsson, sem látið hafa gera hellinn, sem skjól í óveðrum fyrir ferðalanga á leið milli bæja. Eða var Illugi einn af þrælum Ingólfs Arnarsonar, veginn við Illugagötu?
Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is