Brimhólaflatir í Vestmannaeyjum

Flatlendi við Brimhóla, sem lenti undir Illugagötu og íbúðarhúsum þar í grennd um og eftir miðja seinustu öld. Brimhólalaut var vestan Brimhólanna, en hún hvarf eftir Heimaeyjargosið 1973, þegar íþróttahús og sundlaug voru reist í lautinni. Á Brimhólum sást forðum, hvort brimaði við Landeyjasand, þegar bátsferðir voru fyrirhugaðar milli lands og Eyja. Flatirnar þóttu hentugar til mannafunda, þótt þær væru langt utan þéttbýlis á sínum tíma. Herfylkingin, stofnuð um miðja 19. öld af sýslumanninum Andreas August von Kohl, var með æfingar við Brimhóla, en fylkingin var fyrsti vísir að varnarsveit eða lögreglu í Eyjum, íþrótta- og bindindisfélagi og skóla. Blysfarir voru gengnar á Brimhólaflatir, bálköstur kveiktur og álfadans stiginn. Stúkan Sunna hélt t.a.m. slíkar skemmtanir á fyrri hluta 20. aldar og einnig 17. júni- samkomur á fyrstu áratugum aldarinnar, þar sem Hornaflokkur Vestmannaeyja lék, s.s. árið 1911 og Lúðrasveit Vestmannaeyja árið 1920. Nautgripum var beitt á Brimhólaflötum um miðja öldina áður en nutíminn ruddi sér til rúms með gatnagerð og húsabyggingum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar