Oddeyri í Vestmannaeyjum

Oddeyri við Flatir 14 var heimili Margrétar Ólafsdóttur leikkonu, sem fædd var í Vestmannaeyjum 12. júní 1931. Húsið er næstefst, til vinstri á mynd af Flötunum, það stendur enn og hefur verið mikið endurbætt. Eftir að hafa stigið sín fyrstu spor á leiksviði í Eyjum hélt Margrét til Reykjavíkur, nam þar leiklist og lék mikið bæði á fjölum Þjóðleikshússins, en lengstum þó hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þar sem hún var fastráðin um árabil. Þá voru hlutverk Margrétar ófá í útvarpi og sjónvarpi, m.a. í hinum geysivinsælu þáttum Sigla himinfley frá árinu 1996, sem einmitt gerðust og teknir voruk upp að mestu í hennar gamla heimabæ. Hún á að baki leik í ýmsum kvikmyndum s.s. í Börnum náttúrunnar, sem m.a. var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Margrét var heiðruð á margan hátt fyrir sinn leiklistarferil, en hún lést 24. mars árið 2011.

Skildu eftir svar