Gíslaklettar í Vestmannaeyjum
19. júni 1692 var morð framið í fiskbyrgi í Vestmannaeyjum við kletta þá, sem nefndir voru eftir hinum myrta: Gíslaklettar. Slík byrgi, oft nefnd fiskigarðar, voru mjög víða á Heimaey allt frá miðöldum og voru notuð til þess að þurrka fisk, sem seldur var til útflutnings sem skreið. Hinn myrti var sonur Péturs Gissurarsonar prests á Ofanleiti, sem þjónaði eyjaskeggjum á árabilinu 1658 til 1689. Gísli var nýkvæntur Ingibjörgu Oddsdóttur, er átt hafði barn með Pétri nokkrum Vibe. Þennan örlagadag rölti Gísli út á eyju til þess að vitja fiskbyrgis, þar sem geymdur var fiskur. Hann snéri ekki aftur og fannst daginn eftir illa limlestur undir grjóti úr byrgi, sem hafði verið hrúgað yfir hann. Fljótlega vaknaði sá kvittur í Eyjum, að eiginkona Gísla væri viðriðin morðið ásamt systur sinni Ingveldi og vinnukonu, Steinunni Steinmóðsdóttur. Hófust nú yfirheyrslur yfir þeim systrum, sem staðfastlega neituðu aðild að morðinu og hvikuðu hvergi, þótt fast væri að þeim sótt. Vinnukonan gaf sig hins vegar og m.a. af hennar vitnisburði kom fram, að eiginkonan hafði borið brennivín ótæpilega í bónda sinn, systir hennar kastað grjóti í höfuð hans rænulausan og þær stöllur allar síðan fellt byrgið yfir líkið. Eftir nokkurra ára málþóf, bæði í héraði og á Öxarárþingi, var ákveðið á Þingvöllum 1695, að systurnar skyldu báðar „fast og stórlega kagstrýkjast“ og útlægar gerðar frá Íslandi. Munu þær hafa siglt utan frá Vestfjörðum um aldamótin 1700. Steinunn, vinnukona, var hins vegar dæmd til dauða, en slapp vestur undir Jökul og lést þar í hárri elli. Barnsfaðir Ingibjargar Oddsdóttur, Pétur Vibe, var talinn viðriðinn málið, en hann lét sig hverfa til Danmerkur og spurðist ekki meira til hans. Gíslaklettar hurfu undir gjósku þegar Helgafellshraunið var slétt út fyrir nýtt byggingahverfi eftir Heimaeyjargosið 1973. Því er erfitt að staðsetja nákvæmlega, hvar klettarnir voru, en þeir munu hafa verið austar og norðar en Hundraðmannahellir, sem er skammt þar frá. Það gæti þýtt, að Gíslaklettar væru þar undir þar sem nú er norðurhluti íþróttavallar Þórs eða í nágrenni hans, gegnt Fiskhellum, þar sem Tyrkir unnu sín fólskuverk 65 árum áður.