Aðalstræti 7 í Reykjavík

„Á þessari lóð stóð áður fjós Innréttinganna en það var reist árið 1759. Árið 1847 var lóðin seld stiftprentsmiðjunni og lét hún reisa geymsluhús á lóðinni. Núverandi hús var byggt árið 1881 af Jóni Vídalín og Páli Eggertz. Síðar eignaðist húsið Brynjólfur H. Bjarnason og var búsáhaldaverslun með nafni hans rekin í húsinu frá 1886 til 1960. Síðan hafa ýmsar verslanir og skrifstofur verið þar til húsa. Húsið var fyrst virt 27. september 1881 og samkvæmt virðingunni er húsið byggt af bindingi með steinlímbeton og með járnþaki. “

Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir.
Húsakönnun (skýrsla nr. 125). Minjasafn Reykjavíkur 2005.

Jón Vídalín og Arnarhólshneykslið

Jón Vídalín konsúll var athafnamaður í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar, sonur Páls J. Vídalín bónda og þingmanns í Víðidalstungu og barnabarn séra Friðriks Eggerz í Akureyjum. Undir lok 19. aldar kom upp mál  sem skók bæði Alþingi og bæjarstjórn og tengdist sölu á batterínu til Jóns og konu hans Helgu Vídalín. Batteríið var virki sem Jörundur Hundadagakonungur hafði látið reisa þar sem Seðalbankinn stendur núna og Sænsk-íslenska frystihúsið stóð áður.

Batteríið. Fangelsið við Arnarhól fyrir miðri mynd

Ætluðu hjónin að byggja þar sumarhús en á þeim tíma bjuggu þau í Kaupmannahöfn. TIl þess að svo mætti verða þurfti heimild Alþingis en á þeim bæ skiptust menn í tvo hópa í afstöðu sinni til sölunnar. Varð úr þessu mikið hitamál og segir sagan að atkvæði þingmanna hafi gengið kaupum og sölum. Svo mikill var hitinn í mönnum að í Sögu Reykjavíkur segir Klemenz Jónsson frá því að einn þingmaður hafi keypt sér skammbyssu til að verja sig ef á þyrfti að halda. Á endanum samþykkti Alþingi söluna en eftir að bæjarstjórn kærði málið til konungs var málið úr sögunni þar sem konungur neitaði að skrifa undir lögin.

 

 

 

 

Skildu eftir svar