Ás í Vestmannaeyjum

Eldeyjar-Stefán

Í Ási við Kirkjuveg 49 bjó Stefán Gíslason, en húsið byggði hann rétt eftir aldamótin 1900, og var hann kenndur við það. Stefán fæddist í Jónshúsi 6. ágúst 1876, en það hús stóð neðar í bænum, þar sem síðar varð Hlíðarhús norðan við núverandi Hótel Vestmannaeyjar. Stefán vann sér það til frægðar að klífa Eldey fyrstur manna árið 1894 ásamt bróður sínum Ágústi og Hjalta Jónssyni. Þótti ferðin upp Eldey mikið þrekvirki, en þeir félagar þurftu að höggva til slóð upp þverhnípt bjargið, 77 m hátt, uns þeir komust upp, þar sem ekki var vitað til, að nokkur mannleg vera hefði áður stigið niður fæti. Hjalti Jónsson var jafnan kenndur við þetta einstaka afrek, ekki síst eftir útgáfu ævisögu hans 1939, Sögu Eldeyjar-Hjalta, sem Guðmundur Hagalín skráði. Þeir bræður, Stefán og Ágúst, fengu önnur viðurnefni á sinni lífsgöngu, sem varð e.t.v. til þess að þeirra frægðarverk féll örlítið í skugga Hjalta. Í minningargrein um Stefán frá Ási, sem lést 11. janúar 1953, er hann titlaður Eldeyjar-Stefán til þess, að sögn höfundar, að minna á hlutdeild hans í einstöku afreki frá 1894 og tilkalls til þeirrar nafnbótar.

Fyrsta gúmmíviðgerðarstofan

Eldeyjar-Stefán sýslaði við ýmislegt á sinni ævigöngu, lærði m.a. bakaraiðn í Reykjavík og byrjaði að baka brauð 1902 í kjallara húss síns, Ási. Síðar stofnaði hann á sama stað fyrstu gúmmíviðgerðarstofuna í Eyjum í kjöfar mikillar innreiðar gúmmístígvéla í bæinn eftir 1920, sem hentuðu eflaust vel í bleytu og slarki sjósóknar og fiskverkunar! Seinna byggði Stefán Sigríðarstaði suður á eyju, norðan í Stórhöfða.

 

Skildu eftir svar