Stórhöfði í Vestmannaeyjum

Stórhöfði er 122 m á hæð og syðsti hluti Heimaeyjar. Á höfðanum er veðurstöð og viti, sem reistur var 1906 og var hann fyrsta steinsteypta húsið í Eyjum. Veðurstöðin á Stórhöfða er talin sú vindasamasta á Íslandi, en þar hefur mælst mestur vindhraði 67 metrar á sekúndu. Íbúðarhús fyrir vitavörð var byggt við vitann, og á herðum vitavarðarins voru reglubundnar veðurathuganir á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn. Frá 1910 og þangað til starf vitavarðar í Höfðanum var formlega lagt af árið 2007 var vitavarslan í höndum sömu fjölskyldunnar, þar sem 4 vitaverðir í beinan karllegg sinntu starfinu hver á eftir öðrum.

Óskar Jakob Sigurðsson vitavörður

Óskar Jakob Sigurðsson var vitavörður í 42 ár frá árinu 1965 til 2007, lengur en nokkur annar. Afi Óskars, annar vitavörðurinn í Stórhöfða, var bróðir Eldeyjar- Hjalta, er fyrstur var talinn hafa klifið Eldey við þriðja mann árið 1894. Óskar varð landskunnur fuglamerkingamaður og merkti um 85.500 fugla á starfsævi sinni í Höfðanum, sem var heimsmet og kom nafni hans í heimsmetabók Guinness árið 1997. Óskar var heiðraður margsinnis fyrir störf sín í Höfðanum, hann fékk m.a. fálkaorðuna 1997, var kjörinn fyrsti heiðursfélagi Vitafélagsins árið 2006 og hlaut nafnbótina „Hetja umhverfisins“ ári síðar.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar