Austurstræti 22 í Reykjavík

Í Austurstræti 22 stendur endurgerð af húsi sem brann í stórbruna í apríl 2007. Húsið sem stóð hér áður var byggt árið 1801 af Ísleifi Einarssyni yfirdómara í nýstofnuðum Landsyfirrétti. Hús Ísleifs, sem var fyrsta húsið sem byggt var við Austurstræti, varð aðsetur æðstu valdhafa landsins, landsyfirréttar og síðar prestaskólans og biskups. Eftir 1911 var húsið einkum notað undir verslunarrekstur og að lokum undir skemmtistaði.

Embættisbústaður Trape greifa

Árið 1805 keypti Trampe greifi húsið en þá var hann orðinn stiftamtmaður yfir Íslandi. Trampe lét gera miklar endurbætur á eigninni og byggði m.a. forláta eldstó. Þegar Moltke greifi tók við embætti stiftamtmanns árið 1819 neitaði hann að búa í húsinu og í kjölfarið var fangelsið við Arnarhól tekið undir íbúð og skrifstofu stiftamtmanns. Þetta var árið 1820.

Hundadagakonungurinn

Þegar Jörgen Jörgensen náði völdum á Íslandi árið 1809 handtók hann Trampe greifa og settist sjálfur að í húsinu. Trampe var hins vegar settur í skip þar sem hann fékk að dúsa í þær 8 vikur um Hundadagana sem Jörgen ríkti hér á landi.

Yfirréttarhús og svarthol

Þegar Alþingi var lagt niður árið 1800 var stofnaður nýr dómstóll sem hlaut nafnið Landsyfirréttur. Landsyfirrétti var fyrst fundinn staður í Austurstræti 4 en árið 1820 var rétturinn fluttur í Austurstræti 22 þar sem hann var til ársins 1873 þegar hann var fluttur í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Á efri hæð hússins voru einnig fangageymslur sem gengu undir nafninu „Svartholið“ sökum þess hve dimmt húsnæðið var. Á tíma Landsyfirréttar voru einnig haldin vinsæl píuböll í húsinu.

Prestaskólinn

Næst á eftir Landsyfirrétti var Prestaskólinn í húsinu en fram að því hafði skólinn verið í Sívertsenhúsi. Kennslustofur voru á neðri hæðinni en umsjónarmaður skólans bjó á efri hæðinni. Prestaskólinn var í húsinu til 1911 en þá tók guðfræðideild Háskólans til starfa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Um tíma var húsið heimili Péturs Péturssonar biskups og fjölskyldu hans. Pétur, sem var einn af auðugustu mönnum landsins á sínum tíma, var faðir Þóru sem Sigrún Pásdóttir skrifaði um í bókinni Þóra biskups og raunir íslenkrar embættismannastéttar.

Verslunarrekstur og skemmtistaður

Árið 1915 keypti Haraldur Árnason kaupmaður húsið og rak hann fata- og snyrtivöruverslunina Verslun Haraldar Árnasonar, oftast kölluð Haraldarbúð, í húsinu til ársins 1960 en þá hóf Herrabúðin rekstur sinn þar. Var Herrabúðin rekin í húsinu í tæp 20 ár. Tískufataverslunin Karnabær hóf rekstur í húsinu árið 1973 og var þá húsinu breytt talsvert innandyra. Skemmtistaðurinn Astro var rekinn í húsinu á árunum 1994 til 2003 en skemmtistaðurinn Pravda var rekinn í húsinu þegar húsið varð eldi að bráð þann 18. apríl 2007. Brann húsið til kaldra kola.

Skildu eftir svar