Ingólfsbrunnur

Vatnsberar í Reykjavík

Ingólfsbrunnur, milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9, var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið en þangað sóttu Víkurbæirnir og aðrir nálægir bæir vatn sitt. Brunnurinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum eins og víkurpóstur, vatnspóstur og prentsmiðjupóstur. Heitið vatnspóstur kom til eftir að í hann var sett dæla og menn töluðu  um að „pósta“ upp vatninu en nafnið prentsmiðjupóstur kom til eftir að Landsprentsmiðjan var flutt úr Viðey í næsta hús við brunninn. Notkun brunnsins lagðist af með lagningu vatnsveitunnar árið 1909. Talið er að um aldamótin 1900 hafi 34 brunnar verið  í Reykjavík.

Sæfinnur Hannesson vatnsberi

Sæfinnur með sextán skó

Með vaxandi þéttbýlismyndun varð til sérstök stétt fólks sem sá um að bera vatn í hús heldra fólks, svonefndir vatnsberar. Einn þessara vatnsbera var Sæfinnur Hannesson, betur þekkur sem Sæfinnur með sextán skó. Kemur nafngiftin til af því að það var siður Sæfinns að klæða sig í mörg lög af fötum og jafnvel mörg pör af skóm, sumir segja allt að átta pör! Eins og með aðra vatnsbera þá var litið niður á Sæfinn og sagt var að hópur krakka hafi gert sér það að leik að elta hann um bæinn og syngja þessa vísu:

Sæfinnur með sextán skó,
sækir vatn og ber heim mó.
Á ‘ann festir aldrei ló,
af því hann er gamalt hró.

Saga Sæfinns Hannessonar lýsir vel mannlegum harmleik og hversu stutt er á milli samfélagslegar viðurkenningar og útskúfunar. Sæfinnur var sagður hafa verið ósköp venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit kannski enginn en sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum með þeim afleiðingum að Sæfinnur beið hennar allt sitt líf og safnaði peningum til að undirbúa afturkomu hennar. Sæfinnur brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent úr útihúsi við Glasgow-verslunina í nærliggjandi fjöru. Þetta gerðist 10. júlí 1890 en Sæfinnur lést árið 1896.

 

Skildu eftir svar