Laufholt í Vestmannaeyjum

Í Laufholti, Hásteinsvegi 18, bjó Páll Sigurðsson, fyrsti atvinnuökuþórinn í Eyjum. Í kjölfar vélbátaútgerðar á fyrsta áratug 20. aldarinnar stórjukust aflabrögð í Vestmannaeyjum og fiskúrgangur á vertíðum hlóðst upp við aðgerðarhúsin, hausar og beinhryggir. Þessi úrgangur hafði áður verið nýttur, fiskhausar voru t.a.m. eftirsóttir í vöruskiptum við sveitabændur og annar úrgangur borinn á tún og í garða eða notaður sem eldsneyti. Nú var öldin hins vegar önnur, og þegar vel aflaðist skapaðist ófremdarástand á hafnarsvæðinu. Var þá tekið til bragðs að keyra fiskleifar á handvögnum austur á Urðir og steypa þeim þar í sjó fram eða reynt að sigla með þær út fyrir höfnina og fleygja í hafið. Á vertíðinni 1909 byrjaði Páll Sigurðsson (Keyrslu-Páll) að flytja fiskúrgang á hestvagni og hafði atvinnu af fyrstur manna í Eyjum. Nokkrum árum síðar, 1913, var beinamjölsverksmiðju komið á fót til þess að nýta beinin, og þá fjölgaði atvinnuökumönnum í Vestmannaeyjum í fjóra. Keyrðu þeir fiskúrganginn á hestvögnum í verksmiðjuna. Fyrsti bílinn kom til Eyja 1919, og á 3. áratugnum tóku bílar í auknum mæli við hlutverki hest- og handvagna og stétt atvinnubílstjóra varð til.

Skildu eftir svar