Laugavegur 1 í Reykjavík

Friðað timburhús neðst á Laugavegi, byggt árið 1848. Upphaflega stóð húsið út í götuna en árið 1916 var það flutt á núverandi stað.

Assessorshúsið

Árið 1849 keypti Jón Pétursson (1812-1896) sýslumaður, alþingismaður og háyfirdómari frá Víðivöllum í Skagafirði húsið og bjó þar til dauðadags. Húsið gekk lengi undir nafninu Assessorhúsið eftir starfsheiti Jóns í Landsyfirrétti. Jón var einn af hinum þekktu Viðivallabræðrum en bræður hans voru Pétur Pétursson biskup og Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður. Jón var tvíkvæntur og var fyrri kona hans Jóhanna Soffía Bogadóttir frá Staðarfelli í Dölum en seinni kona hans var Sigþrúður, dóttir Friðriks Eggerz (Eggertssonar) í Akureyjum á Breiðafirði. Meðal barna Sigþrúðar og Jóns voru hinir þekktu athafnamenn Sturlubræður. Lesa má um samskipti Jóns og tengdaföður hans í sjálfsævisögu séra Friðriks Úr fylgsnum fyrri aldar sem út kom árið 1950.

Verslunin Vísir

Árið 1915 hófur þeir Guðmundur Ásbjörnsson og Sigurbjörn Þorkelsson, oftast kenndur við verslunina Vísi, verslunarrekstur í húsinu.  Þeir seldu verslunina árið 1943 en áfram var húsið notað undir verslunarrekstur af einhverju tagi, ávallt undir sama nafni þar til verslunin varð gjaldþrota árið 2016. Sigurbjörn var faðir dr. Björns Sigurbjörnssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar