Litla- Grund í Vestmannaeyjum

Á Litlu- Grund bjó Guðmundur Jesson Thomsen verkamaður. Guðmundur var fæddur í Nýborg við Njarðarstíg 13. nóvember 1867 og lést 19. apríl 1937. Hann varð kunnur maður í Eyjum fyrir mikið burðarþrek á seinustu árum 19. aldar og fram á þá 20., þegar bakvöðvar verkamanna voru óspart nýttir til burðar. Guðmundur vílaði ekki fyrir sér að snara þungum kornsekkjum á herðar sér og bar þá upp klappir og klöngur, traðir og tröppur frá morgni til kvölds og kiknaði hvergi. Guðmundur var smár maður vexti, ekki sá sterkasti, en á sínum manndómsárum einhver slyngasti burðarskrokkurinn á Heimaey. Var haft að orði, að þegar sekkur væri kominn á herðar Guðmundar frá Litlu- Grund, sæti hann þar sem fastast og yrði hvergi haggað fyrr en komið væri á áfangastað! Litla- Grund stóð við Vesturveg 24, en var rifin, þegar Vesturvegur var malbikaður. Lóðin stendur auð í dag, þar sem hús Guðmundar burðarþjarks Jessonar stóð. Hann var verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem notaði vöðvaaflið sér til lífsbjargar.

 

Skildu eftir svar