Skólabrú 2 í Reykjavík

Húsið er eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsunum í Reykjavík, byggt árið 1912. Húsið er einnig eitt af fyrstu húsunum með sveigðum gaflbrúnum í anda danskra nýbarokkhúsa. Húsið reisti Ólafur Þorsteinsson (1881-1972) háls-, nef- og eyrnalæknir, sonur Þorsteins Tómassonar sem byggði Lækjargötu 10. Var húsið hannað bæði til þess að vera heimili og lækningastofa. Ólafur og Kristín Guðmundsdóttir eiginkona hans eignuðust þrjá syni: Stefán Jóhann Ólafsson lækni, Ólaf Ólafsson skrifstofustjóra Alþingis og Þorstein Ólafsson tannlækni.

Brautryðjendaverk í húsagerðarlist

„Húsið teiknaði Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og er þetta eitt fárra íbúðarhúsa úr steinsteypu sem hann hannaði. Við hönnun hússins leitaðist Rögnvaldur við að brjótast undan hefðbundinni húsagerð timburhúsanna og móta sjálfstæðan stíl fyrir steinsteypt hús. Húsið er því brautryðjendaverk í hönnun steinsteypuhúsa og hafði mótandi áhrif sem slíkt, en steinsteypt íbúðarhús af þessari gerð, svokallaðar villur, urðu vinsæl hér á landi á öðrum og þriðja áratugi 20. aldar og settu einkum svip á hverfi hinna efnameiri.“

Drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir.
Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 126, 2005.

 

 

Skildu eftir svar