Lækjargata 10 í Reykjavík

Lækjargata 10 er eitt af fáum húsum sem eftir eru í Reykjavík sem byggð voru úr tilhöggnu íslensku grágrýti úr Skólavörðuholtinu og límd með kalki úr Esjunni sem unnið var í kalkofninum. Á þessari lóð stóð einnig síðasti torfbærinn í Kvosinni, Lækjarkot.

Fyrstu íbúarnir

Húsið byggðu bræðurnir Jónas og Magnús Guðbrandssynir árið 1877 en þeir byggðu einnig steinbæinn Brennu sem enn stendur við Bergstaðastræti 12. Upphaflegir eigendur hússins voru Þorsteinn Tómasson járnsmiður og kona hans Valgerður Ólafsdóttir, foreldrar Ólafs Þorsteinssonar háls, nef og eyrnalæknis sem reisti steinhús að Skólabrú 2 handan hornsins. Pétur J. Thorsteinsson, athafnamaðurinn frá Bíldudal, bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni eftir heimkomuna frá Danmörku árið 1910 en árið 1916 flutti fjölskyldan í hús sem Pétur byggði á Laufásvegi 46 og kallaði Galtafell (sjá færsluna Laufásvegur 46). Þegar húsið var selt árið 1991 hafði það verið í eigu sömu ættarinnar í 113 ár

Kirkjuból/Lækjarkot
Málverk Brynjólfs Þórðarsonar

Einar Valdimarsson byggði torfbæ á lóðinni árið 1799 sem hann nefndi Kirkjuból. Á myndinni hér til hliðar af málverki Brynjólfs Þórðarsonar listmálara má sjá bæinn fyrir miðri mynd og steinhúsið fyrir stækkun hægra megin. Árið 1814 fékk bærinn nafnið Lækjarkot og hélt því nafni þar til hann var rifinn árið 1887. Var þetta síðasti torfbærinn í Kvosinni. Bærinn átti sér að mörgu leyti merka sögu. Runólfur Klemensson, sem hafði verið forstjóri Innréttinganna, keypti bæinn 1810 en drukknaði stuttu síðar í Tjörninni. Um 1870 bjó hér maður að nafni Þórður Árnason, betur þekktur sem Þórður kakali, en árið 1874 öðlaðist bærinn óvænta frægð þegar Kristján IX konungur heimsótti bæinn.

Fornleifafundurinn 2015

Árið 2015 fór fram fornleifarannsókn á lóðinni vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóð Lækjargötu 10-12 og komu þá rústir af bæ Einars í ljós. Það kom hins vegar fornleifafræðingum og sagnfræðingum mjög á óvart að undir bæ Einars voru rústir af stórum skála frá víkingaöld með einum lengsta langeldi sem fundist hefur hér á landi. Talið er að rústirnar af bænum geti náð norður undir Skólabrú. Hér má sjá umfjöllun fornleifafræðings um þennan merkilega fund.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com.

Skildu eftir svar