Stíghús í Vestmannaeyjum

Sjómennska og verkalýðsbarátta

Stíghús, Njarðarstígur 5, var heimili Inga R. Jóhannssonar, skákmanns, sem fæddist í Vestmannaeyjum 5. desember 1936. Ingi ólst upp í Eyjum en faðir hans var Jóhann Pálmason , Jói í Stíghúsi, sem var einn þriggja drengja er ráðnir voru til þess að beita línu þegar Þorsteinn í Laufási hóf vélbátaútgerð sína vertíðina 1906. Þetta var nýjung í Eyjum að ráða unga drengi til slíkra starfa en Jóhann var þá 9 ára gamall og hóf þar með sinn sjómennskuferil. Móðir Inga var Ólafía Óladóttir, þekkt baráttukona  í verkalýðsbaráttunni í Eyjum á kreppuárunum. Ólafía og þau hjón voru handgengin „bolsunum“ á staðnum, Ísleifi Högnasyni á Bolsastöðum og fleirum.

Barátta á skákborði

Sonur hjónanna í Stígshúsi, Ingi R., reyndist einnig mikill baráttumaður eins og foreldrarnir. Hann lét svörtu og hvítu reitina á skákborðinu hins vegar nægja sem sitt átakasvæði en Ingi R. gekkst snemma skákíþróttinni á hönd. Ungur var hann kominn til Reykjavíkur og setti þar fljótlega mark sitt á skáklífið svo eftir var tekið. Ingi var einungis 17 ára, þegar hann varð skákmeistari Reykjavíkur, en alls varð hann 6 sinnum Reykjavíkurmeistari. Íslandsmeistaratitlar voru einnig innan seilngar, en Inga tókst 4 sinnum að vinna til slíkra nafnbóta. Hann varð skákmeistari Norðurlanda 1961, alþjóðlegur meistari 1963 og oft valinn í ólympíulið Íslands. Blómatími Inga í skákinni var seinni hluti 6. áratugarins og fyrstu ár þess 7., þar til hann fór í auknum mæli að beina kröftum sínum að öðrum viðfangsefnum. Ingi lést 30. október 2010, en æskuheimili hans í Vestmannaeyjum, Stíghús, hvítt hús með hvítum vegg, ofarlega til hægri á mynd, fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973, en það stóð við eða í hraunjaðrinum eins og hann er í dag.

*

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, er dóttir Inga R. Jóhannssonar.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar