Bolsastaðir í Vestmannaeyjum

Hús verkalýðsfrömuðar

Bolsastaðir, Helgafellsbraut 19, eru tengdir upphafi verkalýðsbaráttu í Vestmannaeyjum og nýrrar hugmyndafræði í þeirri baráttu svo sem nafn hússins gefur til kynna. Hér bjó Ísleifur Högnason ásamt konu sinni, Helgu Rafnsdóttur, og börnum, en þau hjón byggðu húsið árið 1927. Ísleifur var fæddur á Seljalandi undir Eyjafjöllum árið 1895, en flutti ungur til Eyja 1902.

Kommúnisti og bolsi

Ísleifur  varð kaupfélagsstjóri í kaupfélagi verkamanna í Eyjum, Drífanda, á árabilinu 1920-1931 og einn af forvígismönnum samnefnds verkalýðsfélags. Á rústum Drífanda beitti hann sér fyrir stofnun Kaupfélags verkamanna. Ísleifur var mjög áberandi í verkalýðsbaráttunni á 3. og 4. áratugi 20. aldar, eldheitur kommúnisti, „bolsi“, og barðist á mörgum vígstöðum fyrir hagsmunum verkafólks, í rekstri kaupfélaga, innan verkalýðsfélagsins, í bæjarstjórn Vestmannaeyja, í ræðum og riti, á götum úti og torgum. Mikil átök voru í bænum á kreppuárunum, atvinnurekstur erfiður og atvinnuleysi. Ísleifur stóð framarlega í baráttu „öreiganna gegn auðvaldinu“ ásamt mági sínum, Jóni Rafnssyni, sem síðar skrifaði bók um átökin á þessum árum, Vor í verum, sem m.a. fjallar um verkföll og verkalýðsbaráttuna í Eyjum. Oft var heitt í kolunum, og e.t.v varð hitinn mestur, þegar rúða á Bolsastöðum var brotin að nóttu til árið 1932. Spunnust langvarandi deilur í bænum um það, hvort um morðtilraun hafi verið að ræða, hvort skoti var hleypt úr byssu eða steini kastað í rúðuna af miklu afli? Ísleifur varð síðar alþingismaður Vestmannaeyinga árin 1937- 1942, framkvæmdastjóri Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, KRON, frá 1943-1953 og forstjóri Kaupstefnunnar Í Reykjavík og starfaði þar frá 1955 til æviloka 1967.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar