Vesturgata 2 í Reykjavík
Bryggjuhús er nafn á húsi við norðurenda Aðalstrætis sem fékk götuheitið Vesturgata 2 árið 1888. Húsið var byggt árið 1863 af C.P.A Koch en hann var einn af eigendum Sameinaða gufuskipafélagsins. Nafnið Bryggjuhús kemur til af því að norðanmegin við húsið byggði Koch bryggju og til að tryggja aðgang að bryggjunni var gerður undirgangur í gegnum húsið. Þannig myndaði húsið einskonar borgarhlið fyrir sjófarendur og aðra á leið þeirra frá bryggju inn í bæ en bryggjan var um tíma stærsta bryggjan í Reykjavík. En það var ekki bara húsið sem var kennt við bryggjuna, bryggjan var einnig kennd við eigendur hússins. Um 1870 eignaðist Waldemar Fischer húsið og við það fékk bryggjan nafnið Fischerbryggja. Árið 1904 keypti Duusverslunin síðan húsið og þá fékk bryggjan nafnið Duusbryggja. Í gegnum tíðina hafa ýmis fyrirtæki verið með starfsemi í húsinu en síðustu áratugina hafa verið þar veitingahús, fyrst Kaffi Reykjavík en síðan 2007 Restaurant Reykjavík.