Vesturholt í Vestmannaeyjum


Vesturholt, Brekastígur 12, (til hægri á mynd) var heimili Sigmunds Jóhannssonar, uppfinningamanns og teiknara, sem var fæddur í Noregi 22. apríl 1931, en fluttist barnungur til Íslands og til Vestmannaeyja 1955.  Sigmund stækkaði húsið mikið og breytti því. Hann vakti fljótt athygli Eyjaskeggja fyrir sköpunarkraft og hugmyndaríki, sem hann fékk útrás fyrir m.a. við að þróa vélbúnað í frystihús og bátaflotann í Eyjum.  Kom Sigmund fram með ýmsar nýjungar, sem leiddu til framleiðslu tækja, s.s. sleppibúnaðar fyrir báta í sjávarnauð.  Landsþekktur varð þó Sigmund fyrir skopteikningar sínar, sem birtust fyrst í Morgunblaðinu snemma á 7. áratugnum og samtals í 44 ár. Í teikningum sínum sýndi Sigmund samtíma sinn í skoplegu ljósi, og voru stjórnmálamenn á hverjum tíma hans sérgrein.  Þótti hann sérlega fundvís á  sérkenni manna, atburði og atvik í þjóðlífinu, sem landsmenn gátu skemmt sér yfir með morgunmatnum flesta daga ársins og flutt áfram inn á kaffistofur vinnustaða til frekari íhugunar og ánægjuauka. Sigmund lést í Eyjum 19. maí 2012.

Skildu eftir svar